Velkomin til Indónesíu

Síðasta dag októbermánaðar lá leið okkar Craig frá Malasíu til Indónesíu. Við höfðum útvegað okkur tveggja mánaða landvistarleyfi frá sendiráði Indónesíu í Penang, áttum bókaðan flugmiða til Bali og þar sem ein af forsendum vegabréfsáritunarinnar var flugmiði út úr Indónesíu aftur, bókuðum við flugmiða frá Medan, á eyjunni Sumatra, til Penang í Malasíu þann 28. desember.

Ég hafði í raun enga hugmynd um hvað biði mín á Indónesíu, satt að segja höfðum við ákveðið að sækja landið heim vegna þess að “Birthday in Bali” (afmæli á Bali), lét svo vel að eyrum. Ég bar ákveðnar væntingar til Bali, ég ímyndaði mér gylltar strendur, tæran sjó, litrík hof og mikilfengleg fjöll. Ég meina, hvern hefur ekki einhvern tímann dreymt um Bali?

Um 17.000 eyjur mynda Indónesíu og samtals búa um 240 milljónir í landinu, þar af um 3,5 á eyjunni Bali. Íbúar Bali eru hindú-trúar og á hverjum morgni færa þeir guðum sínum litlar fórnir: ávexti, hrísgrjón, blóm og annað tilfallandi fallega lagt í litlar bast- eða bananalaufskörfur.

Eftir að nýlendugræðgi Evrópuþjóða hófst og eyjur Indónesíu “uppgötvuðust”, hefur saga landsins, og þar með Bali, einkennst af baráttum og blóðsúthellingum. Hollendingar náðu norðurhluta Bali á sitt vald á 18. öld og suðurhlutinn féll í hendur þeirra árið 1906, eftir átök sem urðu 4000 innfæddra að bana, og varð Bali þar með hluti af hollenska Austur-Indíafélaginu. Valdatíðin varði þó stutt því í síðari heimsstyrjöldinni hertók Japan Indónesíu, og þar með Bali.

Þjóðfáni Indónesíu við sólsetur

Þann 17. ágúst árið 1945 lýsti Indónesía yfir sjálfstæði. Ástralir, Bretar og Hollendingar tóku sjálfstæðisyfirlýsinguna ekki gilda og réðust inn í landið í von um að ná aftur nýlendum sínum. Tugþúsundir Indónesíubúa létu lífið í bardögum gegn breskum og hollenskum hersveitum og sjálfstæðisbyltingunni lauk ekki fyrr en árið 1949, fjórum árum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna.

En ekki birti til eftir að átökin við utanaðkomandi hersveitir voru yfirstaðin. Kommúnistar,  íhaldssamir múslimar og þjóðernissinnar börðust sín á milli og landið var hálfstjórnlaust til margra ára. Áhyggjur af bæði byltingu stjórnarandstöðunnar og byltingu kommúnista stigmögnuðust og árið 1966 tók yfirmaður hersins sig til og sendi sveitir sínar til að þurrka út 500.000 kommúnista í landinu. Í kjölfarið kom til átaka á milli landstjórnarinnar og herstjórnarinnar sem endaði með sigri þeirrar síðarnefndu. Frá 1967-1998 laut Indónesía valdi herstudds einræðisherra að nafni Suharto sem tókst að gera Indónesíu að spilltasta landi í heimi, samkvæmt fyrstu CPI mælingunni (Corruption Perceptions Index), lausþýtt sem spillingarvísitala, sem framkvæmd var árið 1995. Eftir að Suharto missti völd hefur Indónesía verið lýðveldi og spillingin dvínað, en samkvæmt nýjustu mælingu CPI (2010) er landið nú í 110. sæti af 178.

Spillingin lifir enn í Indónesíu, enda stutt síðan einræðisstjórnin lét af völdum. Okkur hafa borist til eyrna óhuggulegar sögur af ferðamönnum sem lent hafa í klóm lögreglu og annarra yfirvalda, sem búa til lagabrot á viðkomandi og heimta svo háar upphæðir gegn því að fella sektina niður eða komast hjá fangelsisvist. Sú saga gengur að ef svo illa vill til að lögreglan stoppar ferðamann, þá er best að rétta þeim strax, þegjandi og hljóðalaust, 50.000 indónesískar rúpíur (um 625 íslenskar krónur, sem þó er töluverð upphæð hér) til að eiga mestu möguleikana á að sveigja framhjá frekari vandamálum: bakherbergjum, yfirheyrslum og fylgd í hraðbanka af einkennisklæddum mönnum.

En það er ekki bara spilling sem lifir í Indónesíu. Hér lifir líka yndislegt fólk sem brosir breitt framan í lífið, tilveruna og ferðamennina, svo innilega að augun pírast þegar há og falleg kinnbeinin lyftast ósjálfrátt upp samhliða munnvikunum svo skín í beinhvítar og örlítið útstæðar tennurnar. Alla jafna má heyra fólk syngja við iðju sína, hlæja óheft, veifa og vinalega segja: Hello miss! Hello mister!

Já, sólin skein á Bali þegar mig bar að garði, en hvort ég hafi fundið tæra sjóinn, gylltu strendurnar og afmælisveisluna mun ég skrifa um og birta hér í bráð.