Vaglaskógur

Ég var í vaktafríi í síðustu viku og veðrið var dásamlegt. Þar sem ég sat á grasblettinum fyrir utan svalahurðina heima með ilmandi morgunkaffið helltist yfir mig skyndileg löngun í tjaldútilegu.

“Craig! Fancy camping?” hrópaði ég hátt og snjallt svo skilaboðin berðust.

“Sure, why not.” heyrðist dauflega svarað innan úr íbúðinni.

Eg þurfti ekki að velta vöngum yfir ákvörðunarstað. Ég bý á Akureyri og hér hafa flestir einhvern tímann á ævinni slegið upp tjaldi í Vaglaskógi. Ég hef skammast mín margoft fyrir að hafa aldrei heimsótt þetta rómaða og landsþekkta svæði sem staðsett er í aðeins 23 kílómetra fjarlægð frá Akureyri.

Vaglaskógur er annar stærsti skógur landsins og þar eru fallegar  gönguleiðir. Tjaldsvæðið sjálft er fallega staðsett við Fnjóskána, nóttin kostar 950 krónur á mann sem mér þykir nú heldur mikið en  hins vegar selur litla búðin á svæðinu uppáhellt kaffi með ábót á einungis 150 krónur sem jafnaði niður kostnaðinn.

Menntaskólastúlka á gerðarlegum bíl leyfði okkur að sitja upp í frá bensínstöðinni í Leirubakka og að afleggjaranum inn í Vaglaskóg. Hún sagði okkur frá sumarvinnunni sinni, kærastanum og framtíðaráætlununum. Öll vorum við sammála um, að veðrið var gott og lífið var yndislegt.

Frá afleggjaranum eru fimm kílómetrar að tjaldsvæðinu sem við röltum í blíðunni. Tjaldinu fundum við forsælan reit með skóginn í bagrunn og útsýni yfir ána. Svo nutum við veðurblíðunnar og leyfðum göngustígunum að leiða okkur um ævintýri skógarins. Ég gekk um berfætt og tók utan um birkitrén. Við mættum pari á miðjum aldri sem gekk um með hund sín á milli. Maðurinn spurði hvort ég væri að hlusta á tréð. Ég kinkaði brosandi kolli yfir áhugaverðri spurningu hans. “…og heyrist eitthvað??” spurði hann í framhaldinu og af svipnum að dæma fannst honum hegðun mín heldur dularfull.

Sá sem spyr hvort að birkitré tali hlýtur að trúa á töframátt náttúrunnar og alveg er ég viss um að þessi ágæti maður hafi læðst út úr fellihýsinu þegar frúin var sofnuð til að komast að leyndarmálum skógarins. Morgunhjal fuglanna hefur svo kynnt undir ímyndunaraflið og hið útvalda tré hefur sagt honum sögur af dönskum embættismönnum og horfnum huldumeyjum.