Strandbærinn Sanur

Sanur er lítill strandbær staðsettur sunnan við ferðamannastaðinn Kuta á Bali. Þar héldum við afmælisdaginn hans Craigs hátíðlegan á fallegri strönd, þar sem það eina sem spillti fyrir fullkomnum degi var þriggja metra langa, röndótta sæslangan sem hvæsti svo óhuggulega á okkur í sjónum að við þorðum ekki annað en að hlaupa upp á ströndina og halda okkur frá saltvatninu það sem eftir lifði dags. Í sárabætur fyrir Craig fundum við alvöru sundlaugarbar þar sem við sátum á barstólum í vatninu og skáluðum nokkrum köldum af tilefni dagsins.

Eftir frábæran dag í Sanur lá leiðin til eyjunnar Lembongan, sem tilheyrir Bali. Íbúarnir 7000 munu vissulega ekki fá hjartaáfall af streitu. Lífsbjörg flestra er ræktun þara og yndælt var að fylgjast með fólkinu sigla timburbátum sínum meðfram ströndinni, fylla þá af þangi og snúa svo til baka að landi, flytja svo þarann yfir í tvær bastkörfur sem festar eru við bambú-prik sem svo sett er yfir axlirnar svo jafnvægi myndast á milli þarabóndans og karfanna tveggja. Svo er þangið þurrkað á útbreiddum plastdúk á ströndinni. Sjá mátti menn, konur og börn taka þátt í ræktuninni, ýmist á sjó eða landi. Fátt virtist hugsanlega getað raskað ró íbúanna, sem hófu vinnudaginn fyrir sólarupprás og unnu fram að sólsetri.

Þangræktunin gerði eyjuna vissulega heimsóknarverða, sem og náttúran umhverfis eyjuna. Við leigðum okkur bát til að sigla að kóralrifunum, þar sem við syntum með köfunargleraugu með áfestri öndunarpípu („snorkle“) til að skoða lífríki sjávar. Við áttum hin ánægjulegasta dag með litríkum fisktorfum og dansandi kórölum, undir glampandi sól í hreinum sjó.

En svo byrjaði að rigna. Það ringdi látlaust í tvo daga. Við Craig gistum í fallegu timburhúsi með stráþaki (sjá mynd), sem lak. Við vorum því tilneydd til að yfirgefa þessa látlausu eyju og með ruggandi bát héldum við aftur til Sanur.

Hótel-"húsið" okkar á Lembongan

“Þið eruð vingjarnlegt par.” sagði maðurinn eftir dágóða stund og keypti handa okkur stóran Bintang bjór. Svo bætti hann við: “Ykkur er velkomið að gista í villunni minni á eyjunni Gili Meno. Það er afmælisgjöfin frá mér til ykkar.” Að því búnu gaf hann okkur nafnspjaldið sitt og sagði okkur að hringja daginn eftir til að staðfesta dagsetningar og annað slíkt. Ég taldi að sjálfsögðu fyrir víst að þessi ágæti maður hefði fengið fullmarga bjóra það kvöldið og að loforðið myndi enda í algleymi daginn eftir.

Ég dæmdi manninn ranglega og áður en ég vissi af var ég á leið frá eyjunni frægu Bali. Ferðinni var heitið til Gili-eyjaklasans.