“Sástu þetta?”

Klukkan var sjö að morgni þegar við Craig stóðum við Khao San Road í Bangkok og biðum eftir rútunni að landamærum Tælands og Kambódíu. Tekið var að birta, nokkrar uglur síðustu nætur sátu enn að sumbli við nærliggjandi bari þótt tónlistin væri lágstemmd.

“Sástu þetta?” spurði Craig mig og gjóaði augunum á kyrrstæðan leigubíl á miðri götunni fyrir framan okkur. “Konu var ýtt inn í leigubílinn af tveimur karlmönnum sem sitja sitthvoru megin við hana í aftursætinu. Ég efast um öryggi hennar.” bætti hann við þegar hann áttaði sig á að ég hafði ekki orðið vitni að atburðinum.

Afturrúður leigubílsins voru skyggðar svo ekki sást inn um gluggana. Ég gekk því upp að bílnum og opnaði afturhurðina farþegamegin til að spyrja konuna sem Craig sá hvort allt væri með felldu. Við mér blasti óhugguleg sjón. Stór og mikill maður sat í aftursætinu bílstjóramegin og hélt konu hálstaki. Tár runnu niður kinnarnar hennar. Hinn maðurinn, sem sat þeim megin hurðarinnar sem ég opnaði, skaust út úr bifreiðinni og hann sáum við ekki meira þann morguninn.

Leigubílstjórinn sneri sér að mér og sagði mér á ensku að láta mig hverfa því hann þyrfti að leggja af stað með farþegana sína. Ég hváði.

Ég teygði mig eftir konunni og spurði hvort allt væri í lagi, þó augljóst var að svo væri ekki. Hún reyndi að hrista hausinn eftir fremsta megni. Karlmaðurinn við hlið hennar greip utan um hana með þeirri hönd sem ekki var föst utan um hálsinn á henni. Ég bað manninn um að sleppa takinu og reyndi að toga konuna til mín. Á sama tíma hélt leigubílstjórinn áfram að bölva mér.

Stuttu síðar var afturhurðinni bílstjóramegin rokið upp og nokkrir tælenskir menn rifu karlmanninn út úr leigubílnum. Konan grét, skjálfandi tók hún utan um mig og við gengum saman í burtu frá leigubílnum. Aðspurð sagðist hún aldrei hafa séð þessa menn áður, sagðist ekki þekkja þá og ekki hafa viljað fara með þeim heim. Hún þakkaði endurtekið fyrir sig á milli þess sem hún þerraði tárin sem streymdu úr augunum.

Klukkan var rúmlega sjö að morgni og ég átti ekki til orð yfir því sem ég hafði orðið vitni að.

Svo kom hann aftur, karlmaðurinn stóri. Hann tók utan um handlegginn á konunni og sagði “Nú förum við á hótelið mitt.” Við Craig litum á hann spurnaraugum. “Hún vill ekki fara heim með þér” sagði ég við hann á ensku. “Nei, herbergið mitt er mjög gott, margar konur hafa farið þangað” svaraði hann á móti.

Það fór um mig hrollur. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það skipti engu hvort herbergið væri fínt eða ekki og undirstrikaði að konan vildi ekki fara með honum. Hann virtist ekki skilja vandamálið, -herbergið hans væri jú fínt.

Vegfarendur voru farnir að veita rifrildunum athygli og nokkrir skiptu sér af. Á endanum hélt karlmaðurinn loks sína leið og konan fór með starfsmanni nærliggjandi bars sem lofaði að hjálpa henni á gistiheimilið sitt. Tælensku karlmennirnir sem höfðu dregið manninn út úr leigubílnum reyndust vera tuk-tuk (mótorhjól með áfestum vagni fyrir tvo til fjóra farþega) bílstjórar í hverfinu. Þeir fullvissuðu okkur um að þeir myndu hafa auga með málunum.

Ég stóð eftir bæði ringluð og reið. Alla leiðina til Kambódíu sat ég hljóð í rútunni og hugsaði um atvikið. Eru til margir svona einstaklingar, eins og karlmaðurinn í leigubílnum, og leigubílstjórinn sjálfur, sem sá ekkert athugavert við aðstæðurnar í aftursætinu?

Ég kem myndinni af konunni ekki úr höfðinu á mér, þar sem hún sat í leigubílnum hjálparlaus. Hún var heppin að einhver sá til og skipti sér af. Jafnoft hugsa ég um karlmanninn, sem sá ekki hvað var rangt við að neyða konu með sér inn á hótelherbergi. Þess má geta, til að koma í veg fyrir staðbundna hræðslu eða alhæfingar, að hvorki karlmaðurinn stóri né félagi hans voru tælenskir.

Elsku lesandi, ef þú sérð eitthvað sem vekur upp grunsemdir varðandi öryggi hlutaðeigandi, ekki hika við að athuga málin. Vonandi sástu rangt, en hvað ef ekki?