Rottur og réttindabarátta

Eigandi litla gististaðarins í Penang sagði mér að tveimur vikum áður hafði staldrað við íslenskt par sem hafði sagt sér frá fyrirmyndarfangelsisaðstöðu Íslands. Nú þekki ég ekki til þessara Íslendinga sem urðu á vegi hans fyrr í mánuðinum en af lýsingunum að dæma fóru þau fulldraumkenndum orðum um íslensku fangavistina. Jim, eigandinn, varð að vonum yfir sig hrifinn af þeirri hugmynd að eyða nokkrum árum í íslensku fangelsi, þar sem hann nyti góðs matar og hreins vatns í öruggu umhverfi, færi í helgarferðir til Reykjavíkur og auk þess gæti hann, samkvæmt upplýsingum frá íslenska parinu, unnið sér inn 1000 evrur innan fangelsisveggjanna. Að því búnu tilkynnti hann mér stoltur að hann hefði lagt höfuðið vandlega í bleyti og fundið loksins auðvelda lausn á því hvernig hann gæti tryggt sér innlögn í íslenskt fangelsi.

“Ég mun nauðga íslenskri konu!” sagði hann stoltur yfir ráðvendni sinni. Ég leit skelkuð á Craig og þakkaði góðum guði fyrir að vera ekki ein í herbergi áður en ég svaraði þessari vægast sagt ömurlegu uppástungu eigandans. Jim átti bágt með að trúa því að honum yrði líkast til ekki stungið í steininn fyrir að nauðga konu ef málið yrði tekið fyrir af íslenskum dómstólum. Hvað alvarlegri hlið málsins varðar, það er, að maðurinn hafi í alvörunni látið slíkan ósóma út úr sér, kom mér ekki á óvart. Hér eru kvenréttindi af skornum skammti og konur ganga kaupum og sölum líkt og hver önnur verslunarvara. Margir karlmenn tala um konur af þvílíkri óvirðingu og viðbjóði að ég get varla með orðum lýst því. Verst þykir mér þegar Vestrænir karlmenn halda uppi þessum ógeðisumræðum, ég get ekki lagt hendur á ástæðuna en einhvern veginn þykir mér að Evrópubúar, og þá sérstaklega íbúar Norðurlandanna, eigi að vera betur að sér í jafnréttismálum en að líkja konum við skítugar rottur.

Ein afleiðing þessa auðvelda aðgengis að vændi er svokallaður “sex-tourism” eða kynlífsferðamannaiðnaður. Craig sagði mér að þegar hann ferðaðist um Tæland með enskum vini sínum, þá báðir 21. árs gamlir, voru þeir félagar reglulega spurðir af öðrum ferðamönnum, hvers vegna í ósköpunum þeir stunduðu ekki vændiskaup og oftar en ekki var þeim bent á að það væri ekkert í heiminum betra en að hafa “eina tælenska ofan á sér”. Ég varð vitni af kynlífsferðamannaiðnaðinum á ákveðnum stöðum Filippseyja fyrir þremur árum síðan og mér verður enn illt í maganum við minninguna um framkomu evrópsku karlmannanna gagnvart vændiskonunum. Ég ætla ekki að gera ykkur þann óleik að deila með ykkur þeim minningum. Hins vegar velti ég því fyrir mér, hvort það sé eitt að kaupa sér vændi og annað að koma fram við konurnar eins og þær virkilega séu einskis verðar, eða hvort hvoru tveggja sé óumflýjanlega óaðskiljanlegur partur hvort af öðru?

Sama dag og Jim sagðist vilja nauðga íslenskri konu las ég á vefsíðum íslensku fréttamiðlanna um hinar svokölluðu Stóru systur á Íslandi. Hin neikvæða og útúrsnúna gagnrýni sem systurnar stóru hlutu vegna málstaðarins og aðgerða sinna olli mér vonbrigðum. Á slíkum augnarblikum, hinum megin á hnettinum, þegar sálin fyllist viðbjóði yfir kvenfyrirlitningu þá leitar hugurinn heim þar sem lífið virðist ósjálfrátt baðað björtu ljósi réttlætisins. En grasið er ekki mikið grænna heima fyrir þótt ótrúlegt sé, eins og stórusystraumræðan minnti mig á, og jafnréttisbaráttu kynjanna heima er fjarri því lokið. Hér í Asíu halda kaupendur vændis sömu firru fram og kynbræður þeirra á Íslandi, að “skítugu rotturnar” séu í raun hamingjusamar hórur sem völdu sín örlög og starfsframa af kostgæfni.