Penang: Perla austursins

“Geh-koh, geh-koh” sagði gekkó-eðlan hátt og snjallt, sem bjó tímabundið í herberginu okkar í Penang. Hún hélt til á rúminu, mér til mikillar ánægju. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna mannskepnan hefur ekki með tímanum gert eðlur að húsdýrum, til að halda moskítóplágunni og meðfylgjandi sjúkdómum fjarri.

Pulau Penang er eyja í norðvestur Malasíu. Áður fyrr var eyjan ein mikilvægasta höfn Asíu og bar gæluheitið Perla Austursins. Í dag búa þar um ein og hálf milljón manns. Talið er að Kínverjar hafi vitað af tilvist eyjarinnar á 15. öld og að við upphaf 18. aldar hafi indónesískir landnámsmenn sest þar að en það var í raun ekki fyrr en enski kapteinninn Francis Light settist að á eyjunni árið 1786, fyrir hönd Austur-Indía félagsins, að eyjan tók að blómstra sem inn- og útflutningsmiðstöð svæðisins. Kapteinninn setti á fót kaupstaðinn Georgetown, sem hann skýrði í höfðuðið á konungi sínum Georgi fjórða. Í upphafi byggðist efnahagur eyjunnar upp á kryddræktun en í dag einkennir ferðamennska og hátækni efnahagslífið. Strandlengja Penang er þakin háhýsum, ýmist hótelum eða skrifstofubyggingum, sem standa eins og varnarmúr umhverfis eyjuna að frátöldu norðvestur horninu þar sem þjóðgarður svæðisins er staðsettur.

Handan við háhýsin þyrpast saman kínverskar, indverskar og malay byggingar til jafns við sögulegar byggingar frá tíma Francis Light og annarra samtímanýlenduherra. Heyra má skæran bjölluhljóm búddahofanna spila undirleik við bænakall múslimsku moskvanna þegar staðið er með reykelsisfyllt vitin við kínverskt klanhús. Matarmenningin ber sama kokteilkeim og trúarbrögðin þar sem finna má við sama götuhornið soðin hrísgrjón með hvítlaukssteiktu grænmeti að kínverskum sið, naan-brauð og velkryddaðan indverskan karrýrétt, malasískan mi goreng: fersksteiktar núðlur með tófú og grænmeti eða sígilda Pizza Hut grænmetispítsu með ostafylltum endum. Bollýwood-tónlist og bílflautur óma allan sólarhringinn í takt við ólma sölumenn eyjarinnar sem ákaflega hrópa lýsandi slagorð af ýmsu tagi: “hello – taxi, taxi?”, “miss, handbag for the lady?” og eða “Yes? massage? pedicure? maybe?”.

Við þrömmuðum um þjóðgarðinn, heimsóttum söfn og sögulegar byggingar og enduðum daginn ævinlega undir regnhlífinni vaðandi drullubrúnt vatn upp á miðja kálfa sökum yfirfylltra fráveita og skolræsa eftir eftirmiðdagsregnskúr árstíðarinnar. Þegar ég var yngri var búð í Kringlunni sem hét Monsoon. Nú hefur orðið Monsoon öðlast nýja merkingu í huga mér. Göturnar breytast í farvegi regnvatns samblandað skolpi, dauðum rottum, matarafgöngum og öðru tilfallandi.

Já, það er Monsoon-tíð í Asíu og blessunarlega vorum við ekki stödd í yfirflæddri Bangkok þar sem ástandið var grafalvarlegt á sama tíma og við vorum í Penang. Að sama skapi hefur rigningin ekki lagt steina í götur okkar hingað til, í raun eru kostir regntíðarinnar margir. Færri ferðamenn eru á ferli sem lækkar verð gistiheimila, sólin brennir okkur ekki á meðan rigningunni stendur og auk þess sér maður aldeilis aðra hlið á lífinu í Asíu.

 

SAM_1210