Mennt er máttur!

Eftir margra daga hofa-heimsóknir lá leið okkar Craigs til þorpsins Sophy, sem staðsett er í 25 km fjarlægð frá Siam Reap. Bragi Jónsson, vinur okkar frá Íslandi, hafði komið okkur í kynni við stofnendur hjálparsamtakanna HVTO sem reka þróunarverkefni í þorpinu. Okkur stóð til boða að heimsækja þorpið og kynnast verkefnunum og hlökkuðum við bæði til, enda hafði Bragi farið fögrum orðum um Sophy jafnt sem fólkið að baki samtakanna.

Kvöldið áður höfðum við snætt Khmer-karrýrétt með félaga Braga og stofnanda HTVO. Hann heitir Sim Piseth og er 30 ára gamall. Hann er frá Kambódíu og ólst upp í þorpinu Sophy. Fjölskyldurnar í Sophy stunda hrísgrjónaræktun sér til afkomu sem gefur ekki mikinn aur og margar þeirra lifa meira eða minna á sjálfsþurftarbúskap. Þar af leiðir að fjölskyldurnar hafa ekki fjárhagslegt svigrúm til að bjóða börnunum sínum upp á framhaldsmenntun umfram skylduskólagönguna. Þeirra tækifæri í lífinu eru afgirt sökum þessa.

Sim Piseth var heppinn. Hann lauk skylduskólagöngunni og gerðist síðan munkur í átta ár þar sem hann fékk tækifæri til frekari menntunnar. Þar kynntist hann einnig einstaklingum frá Evrópu sem styrktu hann til tungumálanáms (svk. “sponsor”). Hann lærði ensku, spænsku og þýsku sem gerði honum kleift að afla sér leiðsögumannaréttinda. Í dag vinnur hann sem leiðsögumaður og tungumálakunnáttan veldur því að það er nóg hjá honum að gera.

Tekjurnar hefur hann notað til að styrkja systkyni sín til frekara náms til að leiða þau út úr vítahring fátæktar. Þessir evrópsku sponsorar sem urðu á vegi Sim hafa því ekki aðeins hjálpað honum, heldur allri fjölskyldu hans og afkomendum þeirra.

Sim vildi gera gott um betur til að launa þann greiða sem lífið gaf honum. Hann setti á stofn hjálparsamtökin HVTO í þorpinu sínu. Eitt af lykilverkefnum samtakanna er að kenna börnunum í þorpinu ensku og undirstöðuatriði í tölvunotkun. Samtökin hafa í samvinnu við stjórnendur Sophy reist byggingu sem hýsir fjórar kennslustofur, þar af eina tölvustofu. Þau eru nú að reisa aðra byggingu undir fleiri kennslustofur og bókasafn.

Við Craig þustum á hjólafákunum til þorpsins með kortið sem Sim hafði handteiknað fyrir okkur kvöldið áður. Það var vinalegt yfirbragð yfir þorpinu Sophy eins og öðrum þorpum sem við höfum hjólað um í Kambódíu. Fólkið brosti fallega til okkar og kastaði á okkur kveðjum þegar við hjóluðum framhjá, börnin veifuðu, kýrnar bauluðu og hænur gögguðu í vegkantinum. Fallegt var um að litast þrátt fyrir að hrísgrjónaakrarnir skörtuðu ekki grænum lit, því uppskerutíminn var nýliðinn. Margir litlir stígar lágu þvers og kruss um þorpið, framhjá heillandi húsum á stultum, ökrum, ávaxtatrjám og litríkum blómum.

Skólinn er staðsettur í miðju þorpinu og var auðveldur að finna. Yfirkennarinn, Seaknam, tók vel á móti okkur. Hann sýndi okkur skólabygginguna, kynnti okkur fyrir samkennurum sínum og nemendum skólans. Okkur var boðið að setjast inn í kennslustofur og fylgjast með kennslu.

Stúlkan sem sat fyrir framan mig í kennslustofunni sneri sér á stólnum og spurði mig á skýrmæltri ensku hvað ég væri gömul. Ég svaraði brosandi og bætti við: en þú? Stúlkan brosti feimin á móti og sagðist vera ellefu ára. Svo hvíslaði hún að mér: Áttu kærasta? og flissaði örlítið í lófann á sér. Ég jánkaði og spurði hana sömu spurningar. Þá flissaði hún rækilega í báða lófana eins og maður gerir þegar maður er ellefu ára.

Börnin sitja klukkustundarlanga enskukennslu sex daga vikunnar. Við hittum börnin og sátum kennslustundir. Khmer-tungumálið hefur annað stafróf en það sem við þekkjum og því mér fannst aðdáunarvert að sjá hversu dugleg börnin voru að lesa enskuna. Þau æfðu sig að tala við okkur og ég var eiginlega gáttuð á orðaforðanum þeirra. Fjórtán ára gömlu börnin gátu spjallað um lífið og tilveruna og spurt okkur spjörunum úr. Auðveldlega má ímynda sér dyrnar sem enskukunnáttan opnar fyrir þessum börnum, sem búa í næsta nágreni við ferðamannastaðinn Siam Reap.

Samtökin kosta kennarana sína, sem einnig koma úr þorpinu, til háskólanáms í Siam Reap. Enskukennaranir læra ensku til kennsluréttinda og tölvukennarinn leggur stund á nám tengt tölvum. Með þessum hætti mun þetta unga fólk búa áfram í þorpinu og gefa af sér til samtakanna í framtíðinni.

HVTO hefur einnig unnið að því að setja upp vatnspumpur fyrir fjölskyldurnar í þorpinu með aðstoð erlendra styrktaraðila. Ein pumpa dugar fyrir fimm fjölskyldur og er staðsett á lóð heimilanna svo nú er stutt fyrir þær að sækja vatn. Óhreint vatn er ein meginástæða fyrir ungbarnadauða og sjúkdómum, þess vegna er greiður aðgangur að hreinu vatni mikilvægur fyrir fjölskyldurnar. HVTO hefur nú þegar sett upp margar pumpur en enn er skortur á fleirum. Myndin að ofan er af mér og Seaknam við vatnspumpu sem styrkt var af Íslendingum, eins og skiltið gefur til kynna.

Dagurinn í Sophy gaf okkur Craig aukna innsýn í aðstæður íbúa Kambódíu. Saga Sims minnir okkur á að lífið er á tilviljunum byggt og að ekki þarf nema eina manneskju með hugsjón til að koma góðum gjörðum í kring.