Margbreytileiki Malasíu

Malasía er snúið þjóðfélag og erfitt er að skilja hvernig íhaldssamir múslimar og viðskiptasinnaðir kínverskættaðir geti lifað í sæmilegri sátt hlið við hlið. Meirihluti íbúa landsins eru múslimar og opinber skilgreining á Malay þjóðflokknum er hver sá sem heldur uppi Malay hefðum og siðum og leggur trú á Íslam. Af því leiðir að sá þriðjungur þjóðarinnar sem ekki eru múslimar geta ekki talist til Malay þjóðflokksins en þess má þó geta að Malay-fólkið var við upphaf síðustu aldar minnihlutahópur í eigin landi.

Talið er að íslömsk trú hafi borist til Malasíu í gegnum viðskipti við indverska múslimi. Íbúar Malasíu og Indónesíu tóku trúarbragðinu opnum örmum en á þeim tíma var Malasía ekki eitt land líkt og í dag heldur mörg smærri konungsdæmi að hindú-sið. Það elsta, Langkasuka, er talið hafa verið stofnað um árið 200. Konungar umdæmanna tóku svo upp íslamska trú hver á eftir öðrum, sá fyrsti árið 1136, og varð nafnbót þeirra í framhaldinu súltanar frekar en konungar.

Portúgalar og síðar Hollendingar höfðu viðkomu á svæðinu, byggðu múra, virki og viðskiptabönd. Bretarnir komu svo á 18. öld og höfðu landið í greipum sér fram yfir síðari heimstyrjöldina og eftir að hafa stokkað algjörlega upp auðlindum, menningu og fólksflóru landsins gáfu þeir Malasíu að lokum sjálfstæði í ágúst 1957. Í dag er Malasíu skipt upp í 13 ríki og þar af eru 9 sem enn njóta yfirráða súltana, en súltan-nafngiftin erfist, líkt og konungsnafnbótin.

En ekki virðast allir á eitt sáttir um hvernig hægt er að byggja upp réttlátt ríki fyrir alla íbúa Malasíu. Til að byrja með voru íbúum af Malay-uppruna gefin sérstök forréttindi framyfir aðra, þ.m.t. aðgangur að æðri menntastofnunum og opinberum stöðugildum. Langflestir viðskipta- og eignamenn landsins voru þó af kínverskum uppruna, héldu uppi skólum þar sem kennt var á kínversku (mandarín) og harðneituðu að leggja þann sið niður. Deilurnar hörðnuðu með árunum á milli hópanna tveggja og sérstaklega í höfuðborginni, þar sem 198 manns, flestir af kínverskum ættum, létust í óeirðum árið 1969. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin, í von um að jafna út leikinn og stuðla að friði, að greiða götur viðskiptafrumkvöðla af Malay-uppruna að fjármagni með því að veita þeim lán á sérstökum kjörum og gefa Malay-ungmennum styrk til að sækja sér betri menntunar erlendis.

Vart þarf að minnast á að ekki nutu allir Malay-íbúar Malasíu þessara forréttinda og eins og von og vísa er urðu aðeins útvaldir einstaklingar með vini og vandamenn á réttum stöðum hlutskarpastir. Þannig myndaðist ný Malay-millistétt en flestir sátu eftir með báðar hendur jafntómar og áður.

Þrátt fyrir að þjóðin sitji nú sæmilega sátt heyrist enn kvartað úr ólíkum áttum. Íbúarnir sem ekki eru af Malay-uppruna telja aðgang sinn lokaðan að opinberum stöðuveitingum, konur af Malay-uppruna telja sig sæta misrétti vegna íhaldsamra íslamskra laga sem kynsystur þeirra af öðrum trúarbrögðum þurfa ekki að lúta og landsmenn af ólíkum uppruna telja að kominn sé tími til að opna alveg fyrir tjáningarfrelsi í landinu og hlúa betur að almennum mannréttindum í Malasíu.

Það vekur engu að síður undrun að fylgjast með ólíkum menningarhópum lifa í sátt og samlyndi innan sömu landamæra. Malasía er snúið þjóðfélag en endurspeglar á sinn hátt veröldina alla, því hér á móður jörð bærast ólík menningarbrot hvert af sínum uppruna en þegar öllu er á botninn hvolft dreymum við hvert í sínu lagi um friðsælt líf og hamingju allra, ekki satt?