Komodo-drekar

Þegar ég var lítil las ég um dreka í ævintýrabókum og einstöku sinnum sá ég þeim bregða fyrir í teiknimyndunum. En eins og með jólasveina og hafmeyjur, sagði fullorðna fólkið að drekar væru ekki í alvörunni til.

Frá fögru Gili-eyjum héldum við ferðafélaginn för okkar austur á bóginn. Við óðum út í ruggandi trébát sem sigldi til Lombok. Þaðan fundum við bimo til rútustöðvar Mataram, aðalborgar eyjunnar. Þar hoppuðum við upp í rútu til hafnarborgarinnar Sape, sem staðsett er á austurhluta eyjunnar Sumbawa. Sú rútuferð tók samtals 18 klukkutíma, þar af 3 í ferju á milli eyjanna tveggja.SAM_1552 (800x600)

Ég hafði lagt af stað frá Gili-eyjunum þreytt til að tryggja betri svefn í rútunni. Við Craig keyptum tvö sæti en fengum í raun aðeins eitt og hálft, þar sem maðurinn og stúlkan við hliðina á okkur höfðu keypt eitt sæti saman. Við sátum á aftasta bekk en tveir menn höfðu keypt pláss á örþunnu útskoti fyrir aftan öftustu sætinn. Annar þeirra söng hástöfum alla nóttina, í eyrun á okkur. Craig komst vel að á íslensku orði um sönghæfileika mannsins: “Þetta er eins og kisa að deyja”.

Þetta var með hippalegri rútuferðum sem ég man eftir. Fólk svaf með tærnar hvort framan í öðru og lagði höfuð á axlir ókunnugra sessunauta. Eins og það hefði verið auðvelt að pirrast í slíkum aðstæðum þá komst ég ekki hjá því að öfunda fólkið af frjálslegri hegðun þeirra.

Klukkan sex að morgni komum við til Sape, þaðan sem ferjan til eyjunnar Flores lagði af stað. Indónesíubúar byrja daginn snemma og raðir bása á hjólum sem bjóða upp á þjóðardiska Indónesíu, mie goreng (steiktar núðlur) og nasi goreng (steikt hrísgrjón), biðu svangra viðskiptavina. Ég gæddi mér á slíku í morgunmat á meðan ég beið eftir daglegu ferjunni yfir til Labuanbajo, á eyjunni Flores. Ferjan sú bauð upp á plastáklædda “hæginda”-stóla þar sem ungfrúin frá Íslandi fékk loksins sinn langþráða svefn.

Þegar ég rankaði loksins við mér blöstu við fjalllendar eyjur til allra átta, undurfagrar í sólinni. Sum fjöllin voru skógivaxin, önnur voru hrá eins og heima. Ég keypti mér heitan kopi (kaffi) og eyddi það sem eftir lifði siglingarinnar í að dáðst að draumkenndri náttúrunni.

Eftir 32 klukkutíma samfellda ferð komum við loksins til hafnar Labuanbajo. Sá bær er áningastaður ævintýraþyrstra ferðamanna í leit að sannleikanum um tilvist dulúðlegu Komodo-drekanna (The Komodo Dragons).

Komodo-drekar finnast á eyjunum Komodo, Rinca og Gili Motang, sem allar eru hluti af Komodo-þjóðgarðinum. Að auki er talið að nokkrir drekar búi á norðurhluta eyjunnar Flores. Sögusagnir um þessar stærstu eðlur í heimi hafa gengið manna á milli í aldaraðir en tilvist þeirra var fyrst sönnuð af hollenskum vísindamönnum árið 1910. Komodo-drekarnir geta orðið yfir 3 metrar á lengd og vegið rúm 100 kíló, fullorðnir drekar nærast á dádýrum, viltum svínum, hestum, buffalóum, og fleiri dýrum. Smærri drekar nærast á fuglum og litlum eðlum, en fyrstu ár ævi sinnar eyða drekarnir í felum upp í trjám, til að verjast árásum fullorðinna dreka – með öðrum orðum; Komodo-drekarnir eru kannibalískir og borða hvern annan.

Við fengum okkur göngutúr meðfram höfninni í Labuanbajo í von um að finna heiðarlegan kaptein sem væri reiðubúinn til að sigla með okkur til eyjunnar Rinca fyrir lægra verð en það sem ferðaskrifstofur bæjarins bjóða upp á. Okkur varð að ósk okkar, við fundum lágvaxinn kaptein með þykkt og gerðarlegt yfirvaraskegg og sérstaklega vinalegt bros sem bauð okkur dagsferð á kostakjörum.

Siglingin frá Labuanbajo til Rinca tók um þrjá og hálfan klukkutíma. Leiðin lá framhjá óteljandi eyjum, á sumum mátti eyja litlar húsaþyrpingar, á einni stóð föngulegt hótel. Höfrungar léku sér í sjónum meðfram bátnum, einstaka sinnum sigldum við framhjá þolinmóðum fiskimönnum, á örlitlum, óvélvæddum bátum. Að öðru leyti vorum við alein í heiminum, með kapteininum og aðstoðarmanni hans.

Á Rinca hittum við Akút, starfsmann þjóðgarðsins en þar sem Komodo-drekarnir geta hæglega drepið menn er nauðsynlegt að skoða eyjuna í fylgd leiðsögumanns. Hann var jafnframt vopnaður bambúpriki ef drekar í vígahug yrðu á vegi okkar. Við skráðum okkur inn í þjóðgarðinn, borguðum tilskilin gjöld og héldum á eftir Akút.

Komodo-dreki!

 

Ég sá einhverju bregða fyrir undir einu húsanna við skráningarskrifstofuna. Ég pírði augun í sólinni og settist á hækjur mér. Komodo-dreki! Þeir hafa víst svo næmt lyktarskyn að ilmurinn úr eldhúsinu sem staðsett er við skrifstofuna lokkar þá til sín.

Þvílíkar skepnur. Þeir hafa fimm klær, á stærð við fingurna mína, á hverri löpp, sem fyllti mig óhug. Lappirnar eru vöðvastæltar, halinn langur og sterklegur, liturinn hermannalegur svo þeir falla vel inn í umhverfi sitt. Kjaftinn geta þeir opnað nógu vel til að gleypa geit.

Akút fylgdi okkur í um tveggja tíma göngu um eyjuna og eins og góðum leiðsögumanni sæmir þá vissi hann hvar finna mætti fleiri Komodo-dreka. Hann sýndi okkur jafnframt holur þar sem kvendýrin grafa eggin sín, en ár hvert verpir kvendýr 15-30 eggjum, sem hvert um sig eru 86 millimetrar að lengd og vega 80 grömm. Eftir 8-9 mánuði klekjast eggin út.

Eftir göngutúrinn settumst við niður á litlu kaffiaðstöðu skrifstofusvæðisins. Þar sat einnig þjóðgarðsvörðurinn. Akút sagði okkur að einn morguninn hafði þjóðgarðsvörðurinn komið inn á skrifstofu sína og fengið sér sæti eins og ávallt. Þessi morgun var þó ólíkur öllum öðrum að því leytinu til að hreingerningarfólkið hafði gleymt að loka skrifstofunni almennilega kvöldið áður og undir skrifborðinu hafði hreiðrað um sig Komodo-dreki, sem beit haldfast í hægri handlegg þjóðgarðsvarðarins, sem reyndi eftir mesta megni að opna kjaftinn á dýrinu í von um að bjarga höndinni, dýrið brást við með því að bíta í fótlegg hans. Áður en verr fór höfðu starfsmenn þjóðgarðarins heyrt öskrin og lætin frá skrifstofunni og komið verðinum til hjálpar. Full efasemda spurði ég þjóðgarðsvörðinn hvort sagan væri sönn og þá bretti hann upp ermina og sýndi mér ljótt örið á handleggnum.

Áður en við kvöddum Akút bauðst hann til að fylgja okkur aftur bak við eldhúsið til að taka mynd af okkur með einum drekanum. Í öryggisskyni skildi hann bambúvopnið sitt eftir hjá mér og læddist svo hinum megin við dýrið og smellti af okkur Craig mynd þar sem við kreistum fram bros til að hylja hræðslutilfinninguna.

Komodo-drekarnir spúa kannski ekki eldi en þeir bera nafngiftina dreki engu að síður. Ég hef séð þá með mínum eigin augum og get því nú með sanni fullyrt að víst eru drekar til.

 SAM_1570 (2)