Klósettkúnstir

Við ferðafélaginn kvöddum Batak-fólkið á eyjunni Samosir og héldum til borgarinnar Medan, þar sem við eyddum síðustu nóttinni í Indónesíu. Frá Medan flugum við til Penang í Malasíu.

Ég fór á klósettið á flugvellinum í Penang, sem er ekki frásögufærandi nema hvað að ég sá þar hreina klósettsetu, klósettpappír og handsápu. Klósettpappír og handsápa! Ég trúði varla eigin augum. Var ég komin til Evrópu, eða hvað?

Að nota lágt klósett án setu venst þó í raun ótrúlega fljótt. Í Indónesíu er nú á sumum stöðum, sérstaklega í opinberum byggingum og á Vestrænum veitingastöðum, að finna venjulegt setuklósett eins og við þekkjum þau heima. En Indónesíubúar setjast ekki á setuna eins og við heldur standa þau upp á henni. Af því leiðir að ég get ekki sest á setuna heldur, því hún er svo skítug eftir skóförin sem og vatnssullið sem fylgir asísku skeiningaraðferðinni.

Þá er betra að nota krjúpuklósetttýpuna, því það er svo þreytandi fyrir lærvöðvana að halda sér uppi í ónáttúrulegri hálfsetustellingu yfir klósettskálinni þegar ekki er hægt að setjast. Ég kaus því alltaf krjúpuskálina framyfir Vestrænu týpuna í Indónesíu, ef ég hafði um það val.

Fyrsta skiptið sem ég notaði krjúpuklósett til að gera númer tvö var í Kína fyrir fjórum árum síðan og sú klósettferð rennur mér seint úr minni. Við vorum stödd á indverskum veitingastað í úthverfi Guangzhou (Canton) og eftir bragðsterkan kvöldréttinn varð mér svona líka mál.

Salernisaðstaðan var staðsett bakvið eldhúsið og mér til feginleiks var klósettið laust svo ég laumaðist inn. Klósettskálin náði um fimm sentímetrum frá gólfinu. Hingað til hafði ég bara pissað í svona krjúpuklósett, sem hafði ekki verið vandamál, enda ekkert ólíkt því að spræna út í móa. Ég bjóst því ekki við að “hitt” yrði neitt vandamál heldur.

Svo ég girti buxurnar alveg niður á hæla, kom fótunum fyrir á þar til gerðum fótstigum sitthvoru megin við skálina og kraup svo niður. Svo starði ég bara á vegginn og beið, eins og maður gerir venjulega á klósettum með setu.

Allt gekk þetta eins og í sögu, ég hafði í forsjálni tekið með mér servíettur af veitingastaðnum og var bara nokkuð sátt við sjálfa mig að hafa tekist á við eigin fordóma gagnvart krjúpuklósettum og væri nú farin að gera mínar þarfir að hætti innfæddra.

Svo ég girti aftur upp um mig og var í þann mund að fara sulla vatni niður holuna með þartilgerðum plastbala til að skola niður framleiðsluna þegar ég sá hvað hafði gerst.

Ó nei!!

Ég baðaði út höndunum í angist og starði á kvikindið sem lá makindalega beint fyrir aftan skálina. Ég hafði klárað forsjálnisservíetturnar í skeineríið svo ekki gat ég fært hann, ég reyndi að sulla vatni úr balanum á hann í von um að hann hoppaði ofan í skálina en hlunkurinn haggaðist ekki.

Ég fann hvernig stressið og skömmin helltist yfir mig vegna vandræðagangsins, ég blóðroðnaði í kinnunum og var gjörsamlega hugmyndasnauð yfir hvernig ég gæti komið sjálfri mér út úr þessari kúkaklemmu. Mín eina von var að Craig hefði nú þegar borgað reikninginn svo ég gæti hlaupið út og aldrei látið sjá mig framar.

Ég andaði djúpt og opnaði dyrnar fram, tilbúin að hlaupa. Þar stóð fyrir utan hurðina lítil stúlka sem beið eftir að komast á klósettið. Ó nei.

Ég ákvað að eyða engum tíma í handþvott heldur gekk eins rösklega og ég gat að borðinu þar sem Craig sat þolinmóður og beið. Hann var ekki búin að borga reikninginn. Mér leið eins og allir á veitingastaðnum vissu hvað hefði gerst, ég gat varla haldið ró minni og andlitið var ennþá eldrautt. Ég beið þess að litla stúlkan kæmi hlaupandi fram, grátbólgin og harmi slegin yfir óhugnaðinum sem ég hafði skilið eftir við klósettið.

“Craig, ég hitti ekki í klósettið. Ég bíð úti” hvíslaði ég að ferðafélaganum án þess að taka mér sæti. Svo brosti ég skældu brosi framan í þjónana, gekk rakleiðis út og beið eftir Craig á bak við horn.

Craig gerir enn grín að mér fyrir atvikið og ég hugsa enn til litlu stúlkunnar og aumingja manneskjunnar sem hefur þurft að þrífa þetta upp eftir mig.

Núna veit ég að það þýðir ekkert fyrir “stóra” manneskju eins og mig að koma fótunum fyrir á fótstigum sem eru reiknuð út fyrir smærra fólk. Ég þarf að láta tærnar standa út að framan og þá dettur hann undantekningarlaust beint í holuna.

Ef þið finnið ykkur einn daginn knúin til að nota krjúpuklósett, þá kunnið þið hér með kúnstina.

Hvað varðar menningaráfallið eftir Indónesíudvölina þá koma tandurhreinu klósettin með setum, klósettpappírinn og handsápan mér enn á óvart þrátt fyrir að nú séu liðnar nokkrar vikur síðan ég yfirgaf landið.

SAM_1789