Jólahald í Batak-kofa

Frá Bukit Lawang lá leiðin næst til Tobavatns (Danau Toba) sem staðsett er í 900 metra hæð í gamalli gosöskju. Á vatninu er eyjan Samosir þar sem Batakfólkið býr. Áður fyrr stundaði Batakfólkið mannát og bárust sögur af fólkinu til Vesturheims, meðal annars með Marco Polo. Kristniboðar létu orðróminn þó ekki stöðva sig og í dag er sá hluti Batak-fólksins sem býr við Tobavatn kristið. Því þótti mér tilvalið að halda jólin þar hátíðleg.

Rómantískur blær umvafði Tobavatn og kyrrðin réði ríkjum. Kofinn okkar Craigs var á þremur hæðum, byggður í hefðbundnum Batak-stíl. Kisur lúrðu á svölunum okkar, eðlur undu sér við moskítóflugnaát á veggjunum og iglur læddust meðfram gólfunum. Ég klippti grein af einu trénu í garðinum, kom henni fyrir í tómri Bintang-bjórflösku og skreytti hana með útklipptu jólaskrauti sem ég hengdi á þráð. Það er bara eitt jólalag á tölvunni minni og það fékk að óma á endurspilun alla þorláksmessu… Skyld það vera jólahjól? Ég söng með og hugsaði heim, til fjölskyldunnar, jólaljósanna og Nóa-konfektsins. Svo heklaði ég rauða húfu og trefil í stíl handa Bellu bangsa.

Voru jólin virkilega að nálgast? Ég gladdist yfir aðstæðum mínum, hér var ég stödd við kyrrlátt vatn lengst upp í fjöllum – fjarri jólastressi, kaupæði og krepputali. Á aðfangadagsmorgun settist ég við jólatréð og pakkaði inn litlu gjöfunum handa Craig, sem flestar innihéldu einhvers konar útgáfu af ensku Cadburry’s súkkulaði sem mér hafði tekist að finna í Indo-Market búðinni á meginlandinu. Ég sat í makindum, djúpt sokkin í gjafapakningar og sönglandi Jólahjól þegar ein kisan kom aðsvífandi með fyrstu jólagjöfina mína… dauða rottu.

Þegar klukkan sló sex var ég búin að skrúbba mig alla í jólabaðinu og klædd í nýju jólaskyrtuna, Craig var búinn að raka sig og dubba sig upp sömuleiðis. Við vorum tilbúin til að setjast til borðs og jólasteikin þetta árið voru hrísgrjón og indónesískur kartöflukarríréttur. Ég reyndi að bægja frá öllum hugsunum um hnetusteikina og allt girnilega meðlætið á borðstofuborðinu hjá mömmu og pabba.

Eftir borðhaldið hlustuðum kveiktum við aftur á jólalagi Sniglabandsins, opnuðum pakkana, hlógum og skemmtum okkur saman tvö með Bellu bangsa og kisunum og hvolpunum og eðlunum. Í framhaldinu skelltum við okkur á reggae-tónleika í þorpinu þar sem ég dansaði af mér skóna framundir morgun.

Sólin skein alla jólahátíðina en ég faldi mig í skugga forsælla trjáa með ilmandi kaffibolla og ljúffenga súkkulaðimola. Ég þakkaði Guði fyrir allt það sem hann hefur gefið mér og á sama tíma sór ég að næstu jólum verður varið á Íslandi, í faðmi fjölskyldu, Nóa-konfekts og betra úrvals af jólatónlist.

SAM_2276