Innsýn í Búrma

Þær struku mér um lófana konurnar á akrinum líkt og amma Lísa gerði þegar ég var barn. Svo spýttu þær út úr sér blóðrauðri betel-hnetunni í laufblaðinu og tóku annan smók úr heimarúlluðum vindlingnum.

Þær nota náttúrulega sólarvörn kvinnurnar hér, gulan leir sem þær klína á kinnarnar. Þessar hitti ég uppi í fjöllum, nærri bæ að nafni Hsipow. Allar burðuðust með tvær þvottabalastórar bastkörfur hver, sem festar voru á bambúsprik sem þær báru á milli axlanna. Það var þykkara siggið í lófunum á þeim en á iljunum mínum.

Sólin skein yfir skærgræna hrísgrjónaakrana. Konurnar sátu í nestispásu undir skugga laufivaxins trés. Þær átu soðin hrísgrjón án sósu með fingrunum. Hér er lífið gult og blátt og grænt og fallegt.

Svo struku þær handleggina mína og flissuðu yfir hárunum. Hér vex fólki ekki hár á höndunum. Því næst klöppuðu þær lauslega á höfuðið mitt, áhyggjufullar yfir sterku sólskyninu og bentu síðar á bringuhárin sem stóðu út úr skyrtunni á Craig eins og þær hefðu aldrei séð annan eins apa.

“Mingala-ba!” sögðu þær svo á endanum í kór, en það er búrmíska vinakveðjan sem fólk kastar hvert á annað. Því næst stóðu þær upp og skelltu bastkörfunum yfir axlirnar og bentu okkur á að fylgja sér.

Við eltum þær spölkorn upp fjallið. Þær tóku af sér basthattana undir öðru tré og tóku að týna upp skrítin sítrusber. Ein þeirra hellti nokkrum í mjúkan lófann minn. Ég smakkaði eitt og hefði spýtt því út úr mér ef ég hefði ekki verið eins vel upp alin og raun er. En kvinnurnar átu þetta af bestu lyst, eins og Íslendingar borða bláber.

Saga Búrma hefst fyrir hundruðum ára og var landið glæst konungsveldi fyrir komu breska heimsveldisins, sem gerði Búrma að nýlendu sinni árið 1886. Þjóðin barðist fyrir sjálfstæði sem það á endanum fékk árið 1948, og varð landið þá lýðræðisríki. Frelsið stóð stutt því árið 1962 réðst herinn til atlögu gegn ríkisstjórninni, settist á valdastólinn og kom á fót umtalsverðum efnahags- og samfélagsbreytingum undir nafni sósialismans. Þar má nefna þjóðnýtingu á fyrirtækjum, framleiðslu og fjölmiðlum landsins.

Herstjórnin hefur iðulega komist í heimsfréttirnar fyrir ýmis mannréttindabrot. Mótmælendur voru skotnir niður og pólitískir fangar fylltu fangelsin, fólk var þvingað í þrælkunarvinnu, minnihlutahópar voru útskúfaðir og margir fengu flóttamannastöðu bæði í eigin landi sem og í nágrannalöndunum. Enn eru hundruð þúsunda flóttamenn frá Búrma staðsettir í Tælandi og Bangladess.

Árið 1990 voru haldnar lýðræðislegar kosningar í fyrsta sinn til margra ára. Lýðræðishlynnti flokkurinn NLD (National League for Democracy) undir forystu Aung San Suu Kyi hlaut yfirburðasigur, eða 80% atkvæða. Herstjórnin reyndist hins vegar treg við að láta af völdum og stakk Aung San í stofufangelsi, eins og frægt varð í heimsfjölmiðlum.

Herstjórnin hefur nú boðað umbætur og þar á meðal var einmitt að koma á fót lýðræði í landinu og kosningar voru í fyrsta sinn til margra ára haldnar á síðasta ári (2011). Fjórðungur sæta þjóðþingsins og nokkur helstu ráðuneytin eru þó ekki opin fyrir lýðræðislegu vali heldur bundin hernum. Flokkur herstjórnarinnar vann sigur í ofangreindum kosningunum, en Sameinuðu þjóðirnar sem og helstu leiðtogar Vesturlanda tóku úrslitin ekki gild og sökuðu ráðamenn um að mistelja atkvæðin sér í hag.

Þess má geta að Aung San var leyst úr haldi fyrir kosningarnar en hún varð að sneyða hjá þátttöku vegna klausu í nýju stjórnarskránni sem bannar aðilum sem setið hafa í fangelsi að vera meðlimir í skráðum stjórnmálasamtökum. Því hefði því Aung San og fjölmargir aðrir flokksmeðlimir þurft að yfirgefa flokkinn vegna fyrri stöðu sinnar sem pólitískir fangar.

Þessari klausu hefur nú verið eytt og NLD tekur fullan þátt í komandi kosningum og binda margir landsmenn vonir sínar við flokkinn. Víða sjást fánar flokksins og margir ganga með límmiða með flokksfánanum á kinnbeinunum en í fyrra var banninu við að tjá stjórnmálaskoðanir sínar aflétt.

Margir þeirra sem urðu á vegi okkar Craig á ferð okkar um landið tjáðu sig um stjórnmálastöðu Búrma. Þjóðin þráir lýðræði, frelsi og aukna hagsæld, en landið eitt vanþróaðasta land Asíu. Þrátt fyrir að halda í vonina um betri tíð óttast margir að kosningarnar í vor sé eitt allsherjaraprílgabb af hálfu ríkisstjórnarinnar, en gengið verður til kosninga þann 1. apríl næstkomandi.

Hvort þjóðin hlaupi fyrsta apríl eða sjái Aung San Suu Kyi, þjóðhetju sína, setjast á þing kemur í ljós í næsta mánuði. Hetjunni býður þó vandasamt verk fyrir höndum ef flokkur hennar kemst á þing, því spilling þrífst vel í Búrma. Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlega spillingarstuðulsins (Transparency International) fyrir árið 2011 er landið í sæti 180 (af 182), nálgast má niðurstöðurnar hér.

Á sama tíma lesum við í fréttum frá Íslandi um spillingu og vanglöp íslenskra stjórnmálamanna og -kvenna, og erum flest búin að missa alla trú á starfhæfri ríkisstjórn á Alþingi. Fólki finnst orðið tilgangslaust að kjósa og lýsir störfum Alþingis sem sandkassaleik stjórnmálaelítunnar. Því er ekki annað hægt en að dáðst að fólkinu í Búrma, æðruleysi þess og bjartsýninni sem það ber til framtíðarinnar, þrátt fyrir alla þá kúgun sem það hefur mátt þola í gegnum árin.

Íkorni hoppar á milli trjágreina, búrmísk eiturslanga hreiðrar um sig bakvið búdda-styttu, fíll dregur áfram bambúshrúgu, buffalóar baða sig í ánni með börnunum, páfagaukar fljúga um skýlausan himininn og kvinnur reykja vindla undir skugga trjánna og strjúka lófana á íslenskum stúlkum eins og mér.

Hvað sem stjórnmálasögu landsins líður tifa hjörtu landsmanna í takt við náttúruna og það brosir svo breytt að ekki verður um villst að gleðin og kærleikurinn er kraftaverk eitt. Af konunum og körlunum í Búrma má margt læra. Til hvers að leyfa ástandinu að buga sig þegar við höfum svo margt til að gleðjast yfir og þakka fyrir? Ég vakna úr dái og sé lífið ljóslifandi, litríkt, fallegt og fljúgandi. Mikið er dásamlegt að vera til.

 SAM_3382