Hjólandi á milli Khmer-minja

Mér finnst fátt skemmtilegra en að hjóla og reiðhjólið er minn uppáhaldsferðamáti. Ég hef því heldur betur verið í skýjunum undanfarnar þrjár vikur sem ég hef varið hjólandi um nágreni Siam Reap í Kambódíu.

Pabbi og mamma gáfu mér fallegasta hjól sem ég hef á ævinni séð í sumargjöf þegar ég var níu ára. Það var fjólublátt og bleikt, með 18 gírum og handbremsum. Hjólið mitt í Kambódíu, sem ég leigði fyrir einn dollara á dag, var líka með handbremsum, en engum gírum. Það var dökkgrænt, með bastkörfu fest á hátt stýrið. Það var með svokallaðri stelpu-stöng og ég keypti mér pils til að geta verið í stíl við gamaldags hjólið.

Tilfinningin sem fylgir því að knúa áfram eigin fararskjót er engu lík. Þið hljótið öll að þekkja hana. Svo leikur vindurinn við hárið, sólin kyssir nefið, fuglarnir syngja, aparnir hlæja og klóra sér í pungnum, lífið er fullkomið og íslenska dísin syngur óði til Íslands í allri rómantíkinni um blátt lítið blóm og blíðsumars bláhiminn.

Svo kallar fólkið og börnin “Hello sir” og “Hello lady”. Reglulega þarf ég því að gera hlé á söngnum til að hrópa halló á móti og veifa vingjarnlega fólkinu sem stendur upp frá iðju sinni til að heilsa hjólagörpum á ferð um frumskóginn.

Stundum stoppa ég jafnvel og kaupi íste til að svala þorstanum, eða hrísgrjón til að seðja magann. Svo hjóla ég áfram og gæti hjólað endalaust ef það væri ekki fyrir fornu Khmer-hofin sem verða á reglulega á vegi okkar í skóginum.

Þessi hof voru byggð á 8.-15. öld, á tímum Khmer-veldisins og konungum þess. Hið frægasta er Angkor Wat, sem er stærsta trúarbygging í heimi og byggt við upphaf 12. aldar. Þangað flykkjast ferðamenn enda hofið uppgert og vel varðveitt. Nokkur hof standa nærri Angkor Wat sem einnig hljóta sinn skerf af ferðamannastraumnum, sérstaklega þau sem reist voru innan veggja fornu höfuðborgar Khmer-veldisins, Angkor Thom. Kvikmyndin Tomb Raider sá um að tryggja hofinu Ta Prohm vinsældir og er það uppáhaldshof flestra sem leggja hingað leið sína.

Þrátt fyrir að hofin þessi séu mikilfengleg á að líta þá leiðist mér hinsvegar ferðamannastraumurinn, eins kaldhæðið og það nú er, enda ferðamaður sjálf. Með kort af svæðinu og vatnsbrúsa í bastkörfunni hjóluðum við því í átt frá rútustraumnum og héldum í litla leiðangra að ómerkilegri hofunum sem fáir nenna að heimsækja. Við fengum því oftar en ekki að hafa hofin út af fyrir okkur að launum.

Þessi smærri hof eru ekki síður mikilfengleg og hvert og eitt einstakt á sinn hátt. Frumskógurinn hefur í tímans tönn hreinlega gleypt mörg þeirra, tré hafa vafið rótum sínum um veggi og turna hofanna svo klifra þarf inn um glugga og glifur til að skoða hálfhrundar byggingarnar, mosaþakta útskurðina og höfuðlausu stytturnar nánar. Umhverfið er aðlaðandi og fornu minjarnar kveikja á ímyndunaraflinu um horfna tíma.

Gömul orka og týndar sálir sameinast í turnum hofanna sem engum er nú fær nema fuglinum fljúgandi. Eiturgular köngulær spinna vefi sína í hornum hofanna, slöngur fela sig í glufum á milli múrsteinanna, mauraherir byggja bú sín við rætur trjánna og ekkert spillir kyrrðinni nema kannski Craig sem hvíslar: Má ég taka mynd?

Eftir langar hugleiðslur við hofin og hugarflug um konungsveldið og þegna þess bíður hjólið þess þolinmótt að þjóta í gegnum skóginn til baka inn í umferðaróreglu borgarinnar. Á heimleiðinni syng ég fleiri söngva á íslenskri tungu til að vekja mig aftur til lífsins eftir dvalann í tíndum tíma.