Gili-tríóið

Á slaginu sex að morgni beið okkar lítill bemo fyrir utan hótelið á Bali. Þaðan var okkur ekið að austurstrandarinnar, þar sem við áttum bókuð sæti í hraðbát á leið til vinsælustu eyju Gili-tríósins: Gili Trawangan.

Gili-eyjurnar þrjár tilheyra Lombok, sem er nærsta eyja austur af Bali. Fámennt er á þessum litlu eyjum og þar er bílaumferð, og hundaeign, bönnuð. Í stað bíla og mótorhjóla sjá reiðhjól og skrúðprýddir hestvagnar um samgöngur um ómalbikaðar eyjurnar. Ferðamönnum fjölgar frá ári til árs og eru eyjarnar orðnar að hápunkti margra sem sækja Indónesíu heim.

Gili Trawangan er umkringd hvítri strandlengju og tærum sjó. Handan strandarinnar standa í þéttum röðum gistiaðstöður, veitingastaðir, köfunarskólar og barir sem hæfa ferðamönnum af öllum fjárhagstöðum. Gili Trawangan, eða Gili-T eins og hún er jafnan kölluð, nýtur mestra vinsælda af eyjunum þremur, þar hefur mesta uppbyggingin farið fram hvað varðar aðstöðu fyrir ferðamenn.

Það míglak úr öllum svitaholunum þegar ég mætti undir hádegissól á Gili-T, síðasta dag 27. aldursársins. Ég þráði ekkert nema að finna gistiherbergi þar sem ég gæti hent af mér bakpokanum, kælt mig undir ísköldu sturtuvatni, sápað mig rækilega og skellt mér svo í skár-lyktandi föt. “Í leit að herbergi?” spurðu mennirnir á bryggjunni þar sem bátnum lagði. Ég stóðst ekki mátið og elti einn þeirra að gistiheimili og án frekari umhugsunar tókum við ferðafélaginn herbergið. Ég hentist úr svitablautum fötunum og alveg í spreng rauk ég inn á baðherbergið. Þá sá ég að það vantaði klósettsetu á klósettið.

Ég andvarpaði og gretti upp á nefið en settist engu að síður á klósettsetulaust klósettið. Augnarbliki síðar rak ég upp öskur. Stór og stæðileg rotta hafði búið um sig á baðherberginu og greyinu hafði ábyggilega brugðið meira en mér því hún skaust fram og aftur meðfram veggjunum eins og líf sitt væri í húfi. Ég sé eflaust að meðaltali um fimm rottur á dag hér í Indónesíu, sem er lítill fjöldi samanborið við önnur Asíulönd sem ég hef heimsótt. Í Víetnam til dæmis, var meðalfjöldinn á dag sjálfsagt nærri fimtíu. Ég legg það alls ekki í vana minn að öskra í hvert skipti sem ég mæti rottu en rotturnar hafa hingað til heldur ekki, blessunarlega, lagt það í vana sinn að koma sér fyrir í hótelherberginu mínu. Mér brá svo við sjónina að ég gat ekki annað en gargað, stokkið upp í miðjum klíðum og rokið út úr baðherberginu.

Eigandi gistiheimilisins kom aðsvífandi að hurðinni, bankaði í gríð og erg á milli þess sem ég bað hann um að opna ekki inn í herbergið þar sem ég stóð á miðju gólfinu, léttpirruð, og allsnakin. “Kakkalakki, kakkalakki?” hrópaði hann að hurðinni. “Nei, rotta!” hvæsti ég móðguð á móti. Eins og ég hefði kippt mér upp við enn einn kakkalakkann? Þeir eru jafnalgengir á baðherbergjum eins og rennandi vatn.

Ég andvarpaði aftur og í þetta sinn eins og vígt naut. Svo skrúfaði ég frá sturtunni. Veggfestingin fyrir sturtuhausinn var brotin svo sturtuslangann féll á gólfið og úr varð að ég þurfti að halda sjálf á kraftlausum sturtuhausnum og vísa honum yfir mig. Þegar ég var um það bil að fara að bölva brotinni sturtunni, þá áttaði ég mig á því að það litla vatn sem úr kom var sjór en ekki ferskt vatn og mér blöskraði svo aðstaðan að af orðleysi snarhætti ég við að tjá mig frekar um þessa baðherbergisupplifun.

Þess þarf varla að geta að ég byrjaði afmælisdaginn á því að skipta um gistiheimili. Í framhaldinu varð dagurinn draumi líkastur. Ég fékk bananapönnuköku og rjúkandi kaffibolli í morgunmat og skellti mér svo í tæran sjóinn, þar sem ég svamlaði um með skjaldbökum og fiskitorfum fram að hádegi. Grænmetisborganum skolaði ég niður með ísköldum afmælisbjór og lagðist svo á meltuna á ströndinni undir skugga fagurgrænna trjáa. Eftir yndæla “síestu” hoppaði ég aftur út í sjó í áframhaldandi hafmeyjuleik fram að sólsetri.

Litrík og bragðgóð hrísgrjóna- og núðlulaus afmælismáltíð beið mín á fallegum veitingastað á ströndinni: grillað grænmeti fallega raðað á spjót, bökuð kartafla og brakandi ferskt, lífrænt ræktað salat. Af heilsusamlegri máltíð tók við öllu óheilsusamlegri eftirréttur: framandi og fallega skreyttir kokteilar á tónelskum börum Gili Trawangan. Svo dansaði ég undir stjörnubjörtum himni á mjúkum sandinum alla leið heim á hótel, hamingjusöm 27 ára gömul kvinna.

Nokkrum dögum síðar lá leiðin til rólegu eyjunnar Gili Meno, litlu systur Trawangan. Þreytulegi trébáturinn lagði að á ströndinni svo farþegararnir fáu urðu að vaða í land. Sandurinn glitraði undir geislum sólar. Villa ástralska mannsins sem við höfðum hitt á Bali beið okkar á ströndinni og auðfundin, enda á tveimur hæðum á afgirtri lóð. Húsfreyjan tók á móti okkur og fylgdi okkur um húsnæðið. Svo opnaði hún yfirfullan ísskápinn og bauð okkur kaldan drykk.

“Vááá” sagði ég við sjálfa mig þegar ég hallaði mér aftur á fallega bastsólbekkinn á rúmgóðu svölunum, sem lágu af svefnherberginu okkar, og dáðist að dýrlega útsýninu yfir ströndina og hafið. Ég trúði varla eigin augum.

Og “vááá” endurtók ég við sjálfa mig þegar ég hugsaði til þess að það eina sem þessi þriggja daga villudvöl kostaði mig var brosmildi og vingjarnlegheit við ókunnugt fólk á bar.

SAM_1483 (800x600)

Útsýnið úr villunni var ekki af verri endanum!