Fríhafnareyjan Langkawi

Eftir átta daga dvöl í menningarmekku Malasíu var tími til kominn að snúa aftur á ströndina. Paradísareyjan Pulau Langkawi er staðsett nyrst á vesturströnd landsins og siglir hraðbátur daglega frá Penang til eyjunnar fögru. En líkt og sönnum bakpokaferðamönnum sæmir völdum við Craig lengri leiðina, af sömu ástæðu og innfæddir – til að spara nokkur riggitt.

Með ferjunni héldum við frá Penang til meginlands Malasíuskagans, þar biðum við eftir strætó frá bryggjunni að rútustöðinni í Butterworth, þaðan sem við tókum rútu norður til borgarinnar Alor Batar, þaðan sem við tókum annan strætó á bryggjunna þar og svo þaðan bát til Langkawi og húkkuðum okkur svo far frá höfninni að rólega strandbænum því engar almenningssamgöngur eru á eyjunni.

Eftir langan dag kættumst við bæði þegar við settumst í setustofu gistiheimilisins og komumst að því að ekki var nóg með að eyjan búi að hvítum strandlengjum, tærum sjó og frábærum reggae-bar, heldur er svæðið líka ein stór fríhöfn. Það er að segja, á Langkawi er ekki lagður virðisaukaskattur á söluvarning og því fæst áfengi, tóbak, súkkulaði og aðrar vinsælar fríhafnarvöru, fyrir slikk.

Upphaflega höfðum við áætlað að eyða þremur góðum dögum á Langkawi en dagarnir ílengdust og dvölin varð að fimm dögum og síðan að viku, á tíunda degi áttuðum við okkur á því að flugið okkar frá Kuala Lumpur til Bali var eftir einungis tvo daga og var það okkar eina ástæða fyrir því að segja skilið við paradís. Það er flugvöllur á Langkawi, bara svo þið vitið, ef einhvern skildi kitla í fingur og tær við tilhugsunina um sólríka daga á póstkortamynd.

Þannig liðu dagarnir einn af öðrum og allir keimlíkir: leikur á strönd og svaml í sjó á milli heimsókna á bragðgóða veitingastaði og eftir sólsetursbjórinn tóku við hlátrasköll og reggae-dans á mjúkum sandi frameftir kvöldi. Mig mun ekki undra þótt við Craig legðum leið okkar að nýju til Langkawi áður en árið verður liðið.

SAM_1242