Fólkið í skóginum

Margt hefur dregið á daga mína síðan ég yfirgaf Banda Aceh. Þaðan hossaðist ég í háfornri rútubifreið til Bukit Lawang en þangað sækja ferðamenn helst til að hitta náskyldan ættingja manneskjunnar, órangútanapann. í þjóðgarðinum Gunung Leuser nærri Bukit Lawang stendur ferðamönnum til boða að arka um garðinn með innfæddum leiðsögumanni og líkurnar á að órangútanapi verði á vegi þeirra eru mjög miklar.

Órangútanapar finnast aðeins á eyjunni Borneo, sem tilheyrir bæði Malasíu og Indónesíu, og á eyjunni Súmötru í Indónesíu, en þess má geta að órangútan (“orang utan”) þýðir skógarfólk á malasísku og indónesísku.Órangútanapar eru í útrýmingarhættu og fækkar dýrunum stöðugt, sérstaklega vegna eyðileggingar á heimkynnum þeirra. Súmatranski órangútanapinn er á lista IUCN (International Union for Conservation of Nature) yfir 25 prímatategundir í mestri útrýmingarhættu á alþjóðavísu, en aðeins 6600 súmatranskir órangútanapar eru eftir í heiminum.

Að baki eyðileggingu frumskóga og þar með heimkynna órangútanapanna stendur löglegt, sem og ólöglegt, skógarhögg. Á þessum svæðum eru skógar ruttir til ræktunnar pálmatrjáa en afurðir þess eru síðan notaðar til framleiðslu á pálmaolíu. Malasía og Indónesia 83% af heimsframleiðslu pálmaolíu. Pálmaolía er til dæmis notuð við framleiðslu snyrtivara og ýmissa matvæla, en einnig sem lífdíselolía til að knýja áfram farartæki.

Eftirspurn á pálmaolíu hefur á undanförnum árum aukist til muna og eiga frumskógar þessara landa undir högg að sækja, í orðsins fylgstu merkingu.  Samkvæmt fréttavef Breska ríkisútvarpsins (BBC) hefur ríkisstjórn Indónesíu viðurkennt að um 50.000 órangútanapar hafa tapað lífi sínu á undanförnum árum vegna skógarhöggs. Þar í landi voru innan við 2000 km2 af skógi nýttir til pálmaræktunnar árið 1967 en hafði aukist í yfir 30.000 km2 árið 2000. Talið er að 30.000 km2 til viðbótar verði ruttir og nýttir undir pálmaframleiðslu fyrir árið 2020.

Máttur neytenda á alþjóðavísu er þó takmarkaður, því erfitt er fyrir neytendur að sniðganga vörur sem innihalda pálmaolíu, þar sem framleiðendur nota alla jafna samheitið jurtaolía á innihaldslýsingum, sem gæti átt við pálmaolíu, jafnt sem aðrar tegundir jurtaolía.

Í Bukit Lawang stafar órangútanöpum hins vegar helst ógn af ferðamönnum, sem á sama tíma eru þeirra helsta lífsvon, vegna þeirra gjalda sem þeir borga til að berja tegundina augum auk áróðurs þeirra um að halda lífríki þeirra í þjóðgarðinum óhultu fyrir pálmaolíuframleiðendum.

Ég nældi mér í smá kvefpest eftir rykugt ferðalagið til þorpsins og kunni því ekki við að arka um heimkynni órangútanapanna því þeir eru einkar næmir fyrir smiti og hin saklausasta veira í mönnum getur hæglega dregið skógarfólkið til dauða, sem er ástæðan að baki þeirra ógnar sem órangútanöpunum stafar af ferðamönnum.

Rykuga rútuferðin endaði því sem hálfgerð fýluferð í mínu tilviki. Ég gerði þó gott úr þessu og rölti um litla þorpið, safnaði kjarki til að ganga yfir hengibrýrnar yfir ána sem rennur þar í gegn, fylgdist með öpunum (ekki órangútanöpum þó) leika sér í trjánum eins og Tarzan forðum og kjaftaði við innfæddu leiðsögumennina sem gengu menntaveginn í frumskóginum.

 

Heimildir:

BBC (2010). Orangutan survival and the shopping trolley.

IUCN/SSC (2009). Primates in Peril: The World’s 25 Most Endangered Primates 2008-2010.

GRID-Arendal (e.d.). Oil Palm Plantations.

Mynd: Af síðunni Orangutans.com.au