Boney M og kvenlegur klæðaburður

Eftir dvölina í unaðslegu Langkawi brunuðum við í burtu á laugardagskvöldi með miðnæturrútu til Kuala Lumpur, höfuðborgar Malasíu, til að forðast umferðaröngþveiti sunnudagsins. Við tókum ferjuna til meginlandsins og biðum svo á töturlegum útiveitistað fyrir utan rútustöðina í Alor Batar eftir að klukkan slægi tólf. Við pöntuðum fyrir misskilning þrjá stóra skammta af steiktum núðlum þökktum niðurskornum, eldrauðum chilli-pipar sem við nörtuðum í þá fjóra klukkutíma sem biðin tók, á milli þess sem við skiptumst á að setja riggitt í juke-boxið okkur til ágætrar afþreyingar. Mér fannst hálfsúrrealískt að hlusta á Boney M. syngja um Babylon þar sem við sátum umkringd settlegum múslimum seint að kvöldi í Alor Batar, en ég gat ekki séð að nokkur maður kippti sér upp við fjörlegu tóna juke-boxins.

Á sunnudagsmorgninum komum við okkur aftur fyrir í kínahverfi Kuala Lumpur og fengum okkur svo göngutúr um hið litríka “Litla Indland” og heimsóttum elstu moskvu borgarinnar. Ég kann vel að meta það við Malasíu að hér eru gestir velkomnir að skoða moskvurnar utan bænatíma. Konur sem ekki eru íslams-trúar fá að láni höfuðslæðu og langerma, öklasíða slá. Mér hafði aldrei áður hlotnast tækifæri til að heimsækja moskvur áður en ég kom til Malasíu, því allajafna eru þær lokaðar gestum af öðrum trúarbrögðum en íslam. Moskvurnar sjálfar eru yfirleitt á einni veggjalausri hæð og þaki haldið uppi á súlum. Í garðinum er þvottaaðstaða fyrir konur og karla til að þvo sér fyrir bænastund.

Í þjóðarmoskvu (National Mosque) Malasíu er stór standur með upplýsingabæklingum um íslamska trú sem áhugavert var að fletta í gegnum. Ég fann svitann streyma niður bakið á mér og höfuðslæðan límdist við hálsinn, mér fannst hitatilfinningin í öllum þessum fötum virkilega yfirþyrmandi. Ég spurði starfsmann moskvunnar hver sagan væri á bak við klæðaburð kvennanna. Hann sagði mér að svona hefði María mey klætt sig og samkvæmt skilgreiningu orða Kóransins (helgu bók íslams) ættu allar konur að klæða sig eins og hún. Hann sagði mér jafnframt að kristin trú hefði lagt aðra skilgreiningu í sömu orð og þess vegna væru þær konur sem helguðu líf sitt Guði, þ.e. nunnur, klæddar eins og María mey. Þess má geta að ég hef þessa vitneskju einungis eftir starfsmanni moskvunnar en deili henni með ykkur sökum þess hversu athyglisverð mér finnst tengingin vera á milli trúarbragðanna auk þess sem frásögnin varpar ljósi á hversu ólíkar orðmerkingar geta verið örlagaríkar. Að hugsa sér ef kristin trú hefði lagt sömu merkingu í ofangreind orð og sú íslamska, þá væri ég líka klædd eins og María mey upp á hvern dag.

Í einum upplýsingabæklingnum í moskvunni stóð þýdd klausa úr Kóraninum varðandi klæðaburð kvenna. Samkvæmt henni eiga konur að hylja þá líkamsparta sína sem ólíkir eru líkamspörtum karlmanna til að forðast aðkall og halda virðingu sinni. Þar sem ég stóð í svitabaði undir öllum fötunum og velti því fyrir mér hvort sundbolur væri ekki nóg til að uppfylla þessar kröfur leit Craig á mig með spurn í augum og kastaði fram enn betri spurningu: Hefði ekki verið nær að kenna karlmönnum að halda sig á mottunni í kringum konur og sýna þeim virðingu hvernig sem þær væru klæddar?

Á sunnudagskvöldinu, okkar síðasta kvöldi í Malasíu í bili, sat ég ein við lestur í setustofu kínverska gistiheimilisins þegar þrír lífsglaðir Ítalir buðu mér að koma með sér á barinn til að halda upp á afmæli eins þeirra. Þar sem við Craig höfðum ekkert skoðað höfuðborgina að nóttu til, að frátöldu kínahverfinu, sló ég til. Þau höfðu fundið út hvar besta skemmtistaðahverfið var og saman héldum við arkandi, vopnuð götukorti í leit að afmæliskokteilnum, sem við á endanum fundum. Þessi kvöldstund væri svosem ekki fréttnæm nema vegna áhugaverðrar menningarsamsetningar viðskiptavina skemmtistaðanna. Allir karlkyns gestir skemmtistaðanna sem við sáum voru múslimir. Allir kvenkyns gestirnir voru hins vegar af kínverskum uppruna. Ítalarnir voru nýlentir í Malasíu og klóruðu sér enn meira í kollinum yfir þessu en ég og skiptust á að spyrja mig hvort það væri ekki örugglega rétt að múslimir neyttu ekki áfengis. Mér fannst hins vegar öllu athyglisverðara að fylgjast með daðrinu og dansinum, eftir mánaðardvöl í Malasíu hef ég aldrei orðið vör við náið sambland á milli menningarhópanna fyrr. Ég átti erfitt með komast hjá því að draga ályktanir út frá því sem fyrir augu bar.

En þetta er nú einmitt ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst skemmtilegt að ferðast. Það getur verið krefjandi að setjast ekki í dómarasætið og dæma það sem öðruvísi er. Ég get vel ímyndað mér að íslensku karlmennirnir væru síður að klípa í stelpurnar ef þær dressuðu sig upp eins og íslömsk trú mælir fyrir um sem væri jú léttir fyrir okkur stúlkurnar, auk þess sem þeim tækist aldrei að stara á útvalda líkamsparta. Þetta er eflaust líka lausn á allskyns útlitsfordómum, það gæti til dæmis enginn dæmt mig út frá hárinu ef ég hyldi hárið alla daga.

En hvað sem Boney M. og hárslæðum líður, þá lærði ég töluvert um fjölbreytileika mannlífsins á dvölinni í Malasíu og eftir viðburðarríkan mánuð hélt ég sátt og sæl til eyju guðanna í Indónesíu: Bali.

 SAM_0985