Banda Aceh

Þessa stundina er ég stödd í Banda Aceh, sem er höfuðborg héraðsins Aceh í norðurhluta indónesísku eyjunnar Sumötru.

Árið 2004, þegar Íslendingar lágu ýmist undir sæng með nýju jólabókina, nörtuðu í hangikjötsafganga eða rokkuðu í kringum jólatréð hlupu íbúar Banda Aceh skelfingu lostnir undan mannskæðri flóðbylgu. Undanfari flóðbylgjunnar var jarðskjálfti sem mældist 9,0 á richter-skalanum og átti upptök sín á hafi úti, um 250 kílómetrum frá Banda Aceh.

Flóðbylgjan skall á strendur Indónesíu, Malasíu, Tælands, Bangladess, Indlands, Sri Lanka, og fleiri landa. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans létu samtals 129,775 manns lífið í Aceh-héraðinu og til viðbótar voru 36,786 manns saknað. Í sumum þorpum héraðsins, til dæmis Ulee Lheue, fórust allt að 90% af íbúunum. Hér má sjá myndband á Youtube af flóðbylgjunni í Banda Aceh.

 

Á 2. í jólum árið 2004 fylgdist heimsbyggðin hrærð með fréttum af flóðbylgjunni.  Hjálparsamtök hófu fjársöfnun fyrir fórnarlömbin, ríkisstjórnir, stofnanir og fyrirtæki veittu rausnarlega neyðaraðstoð og hjálpargögn og mannafli tók að berast til þjáðu svæðanna.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Aceh komst í heimsfréttirnar. Héraðið, sem er sjálfstjórnarsvæði innan Indónesíu, átti að baki 30 ára sögu óeirða á milli stjórnarhers og uppreisnarsinna. Frá árinu 1976 urðu átökin valdur að hundruðum dauðsfalla og mannréttindabrota, og settu strik sín á efnahagskerfið en héraðið er ríkt af gas- og olíuauðlindum. Í kjölfar flóðbylgjunnar skrifuðu uppreisnarsinnar og stjórnarherinn undir friðarsamkomulag í Helsinki árið 2005.

Friðarsáttmálin frá 2005 auðveldaði uppbyggingarstarf í Aceh eftir flóðbylgjuna en stór hluti svæðisins var rústir einar. Yfir hundrað þúsund hús hafa verið byggð í Banda Aceh, vegir hafa verið endurlagðir um héraðið og grunnkerfi á borð við vatns- og skólplagnir eru nú komin í samt lag. Skólar, heilsugæslustöðvar og opinberar byggingar hafa verið endurreistar. Héraðinu hlotnuðust 7,8 billjónir dollara í enduruppbyggingarstarf og nú sjö árum síðar er ótrúlegt að hugsa til þeirra hörmunga sem dundu yfir borgina.

Eftir standa fjöldagrafir og minnisvarðar um flóðbylgjuna, að frátöldum minningum íbúanna.

Sem dæmi um minnisvarða má nefna bát sem flóðið ýtti með sér upp á húsþak. Báturinn hefur verið nefndur Örkin hans Nóa, því hann bjargaði 59 mannslífum frá drukknun. Annað dæmi er 2600 tonna skipið Apung sem flóðbylgjan bar 3 kílómetra inn af ströndinni. Talið er að lík finnist undir skipinu, sem ekki stendur til að færa.

Margir minnisvarðar um flóðbylgjuna hafa verið reistir um Banda Aceh. Einn þeirra stendur nærri skipinu Apung og er sá prýddur ljósmyndum af hreinsunarstarfi í kjölfar flóðsins. Þær sýna illa farin, rifin og rotnandi lík á víð og dreif um borgina. Mér fannst tilhugsunin um hörmungarnar sem reið yfir borgina óraunveruleg, voru þessar myndir virkilega teknar hér, þar sem ég hafði gengið um í sólinni síðustu daga?

Ég man vel eftir fréttaflutningi af flóðbylgjunni. En að vera hér og hugsa um hvað allir í kringum mig hefðu upplifað fannst mér erfitt. Konan í matvörubúðinni, þjónninn á kaffihúsinu, leigubílstjórarnir, hótelstarfsfólkið, flóðbylgjan markaði spor sín á líf nánast allra sem ég hitti og ég átti erfitt með að setja þetta í samhengi. Ég horfði á heimildarmynd um flóðbylgjuna í hinu umdeilda Tsunami-safni bæjarins sem sýndi hvernig Banda Aceh varð að rústum einum á nokkrum klukkutímum. Gat þetta virkilega hafa átt sér stað hér?

Íbúar Banda Aceh eru ekki sleipir í ensku og ég er ekki sleip í indónesísku svo samtöl mín við heimamenn hafa einkennst af látbragði og bendingum. Þau mynda stóran boga með öðrum handleggnum til að lýsa flóðbylgjunni. Nokkrir hafa sýnt mér örin á líkamanum sínum.

Þrátt fyrir að margt hafi verið gagnrýnt varðandi uppbyggingu og hjálparstarf á svæðinu og eflaust hafi margt mátt betur fara hefur endurreisn Banda Aceh engu að síður verið árangursrík. Almenningsgarðurinn Thanks to the World er staðsettur í miðjum bænum og er tileinkaður þeim löndum sem studdu enduruppbyggingu bæjarins. Þar á meðal er þökk til Íslendinga.

Einkennilegur hamingjuhrollur fór um mig og ég varð hálfklökk við að ganga um garðinn og sjá hvern þakkarskjöldin á fætur öðrum, tileinkaður löndum frá öllum heimshornum. Uppbygging samfélagsins hefði ekki verið möguleg án þessarar aðstoðar. Garðurinn Thanks to the World ber vitneskju um samstöðu heimsins þegar á reynir.

SAM_2201 (600x800)