Bali

Algengt er að nýútskrifaðir nemendur upplifi sig hálfáttavillta á krossgötum lífsins og ég var þar engin undantekning. Ég hafði hinsvegar fundið lausn á hvernig eyða mætti öllum efasemdum um tilgang tilveru minnar.

Ég stefndi til Bali, þar sem ég ætlaði að finna mér fallega strönd, kaupa mér drykk í kókoshnetu með röri, koma mér vel fyrir á litríku klæði á gylltum sandi, ligna aftur augunum, hlusta á öldurnar leika við skeljarnar í sjávarmálinu, finna goluna gæla við líkamann, anda djúpt og finna hinu fullkomnu sálarró sem myndi leiða mig í gegnum vegi framtíðarinnar svo ekki yrði um villst hvað mér væri ætlað að gera í þessu lífi.

Ég lenti á alþjóðlega flugvellinum á Bali að kvöldi til. Ég tók leigubíl til strandbæjarins Kuta, sem staðsettur er örstutt frá flugvellinum. Ég fékk vægt áfall þegar ég sá umferðina og mannmergðina, blikkandi ljósin, mengaða loftið og háværu teknótónlistina. Ég fylltist vonbrigðum og ákvað strax að sálarróin biði mín ekki á Bali.

Ungt fólk frá Ástralíu í „Beer Bintang” og „i-pood” bolum með sjóbretti í einni hönd, og Bintang-bjór í hinni, fylla götur, og strendur, Kuta. Í raun má segja að Kuta sé eins og hver annar partýstrandbær við Miðjarðarhafið sem laðar til sín ungt fólk í leit að fjöri og frelsi frá daglegu amstri. Veitingastaðirnir sérhæfa sig í Vestrænni matargerð, alþjóðlegar verslunarkeðjur standa í þéttum röðum meðfram aðalgötunum og barirnir keppast um hylli ferðamanna með „happy-hour“ tilboðum á kokteil og bjór.

Að litlu fórnunum í bastkörfunum og útliti eyjaskeggja undanskildu, var fátt sem minnti á Asíu að finna í Kuta. Ég tók þó veitingastöðunum fagnandi, enda orðin þreytt á núðlum og hrísgrjónum. Ég tók líka auglýsingu um tónleika með Jason Mraz fagnandi, enda átti ferðafélaginn minn afmælisdag í vændum, og ég var komin á síðasta séns með að finna hinu fullkomnu afmælisgjöf.

 

 

 

 

 

 

Eftir nokkra daga yfirgaf ég Kuta og ferðaðist um Bali. Ekki skortir eyjuna gylltar strendur, kókoshnetudrykki og ölduhljóm, en samt sem áður var framtíðarlausnina hvergi að finna. Hinumegin miðbaugs stóð ég enn á sömu krossgötum og áður.

Ég staldraði við og leit til baka. Ég hugsaði um aðstæður mínar. Svo bar ég þær saman við aðstæður ölvuðu Ástralana í bintang-bolunum. Ég var ekki komin til Bali til að fríka út og fá mér tattú, því framtíðarferillinn bíður mín hvergi. Ég flautaði kapphlaupinu af fyrir mörgum árum síðan, hamingjusöm með mitt hlutskipti í lífinu. Háskólaútskriftin þyrfti ekki að breyta neinu þar um, þrátt fyrir áróður samfélagsins um annað.

Nú lifi ég hinu stresslausa lífi ferðamannsins, sem veit hvorki hvaða dagur er né hvað klukkan slær. Líf ferðamannsins snýst um að nota öll skilningarvitin til að skilja, læra og upplifa umhverfið: mannlífið, menninguna og tungumálið, náttúruna, söguna og öll tengslin þar á milli.

Líf ferðamannsins snýst líka um að kynnast sjálfum sér og öðlast umburðarlyndi gagnvart eigin kostum og göllum. Þegar mér tókst að sætta mig við það að bæði sálarróin og krossgöturnar væru mínar andlegu fylgjur sem ferðuðust með mér, rifjaðist upp fyrir mér tilgangsleysi þess að eltast við úrelta framtíðarklisju sem tæki frá mér þá dýrmætu orku sem nauðsynleg er til að njóta hvers augnarbliks til fulls.

SAM_1304